Svakalegasti lestrarskóli landsins!

Afhending_verdlauna_i_Skala

Sigurvegari Svakalegu lestrarkeppninnar 2025 er Melaskóli og fær titilinn Svakalegasti lestrarskóli landsins 2025!

Tæplega 17 þúsund börn í 1.-7. bekk í 90 skólum um land allt tóku þátt í Svakalegu lestrarkeppninni 2025. Lestrartölurnar eru vægast sagt svakalegar en samtals hafa öll börnin lesið í um 9,7 milljón mínútur á einum mánuði, eða í 161.539 klukkustundir. Skólar um allt land og af öllum stærðum tóku þátt í keppninni. Fámennasti skólinn með 6 nemendur og sá fjölmennasti með rúmlega 500 nemendur. 

Melaskóli stendur uppi sem sigurvegari en þar lásu börnin í heilar 929.962 mínútur á tímabilinu 15. september til 15. október 2025. Það eru 15.500 klukkustunda lestur. Hver nemandi í Melaskóla las að meðaltali í 1813 mínútur yfir einn mánuð, eða í um 30 klukkustundir.

Við erum gífurlega stolt af nemendum okkar! Í Melaskóla ríkir sterk lestrarmenning og hér hefur alltaf verið lögð mikil áhersla á bækur og lestur. Allir dagar byrja á yndislestri, lesin er nestissaga í öllum árgöngum og bókasafnið okkar er uppáhaldsstaður margra. 

Það er alltaf gaman að sigra keppni en ávinningurinn af því að vekja áhuga barna á lestri og bókum er enn dýrmætari og mun nýtast nemendum okkar alla ævi. 

Takk foreldrar fyrir ykkar framlag, takk fyrir að sinna heimalestrinum, skrá mínútur og halda vel utan um börnin ykkar. Þið eruð fyrirmyndir og ykkar viðhorf skiptir miklu máli. 

Til hamingju öll!